top of page

Forritið Nemanet bætir námstækni nemenda Nemanet er nýtt forrit sem bætir námstækni nemenda. Í forritinu er hægt að setja inn allt námsefnið, sem nemandinn flokkar svo niður eftir hentugleika. Með þessum hætti er verið að nútímavæða námstæknina.
 

Forritið hefur verið í um áratug í vinnslu og byggir á reynslu og vinnu þeirra hjóna, Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur námsráðgjafa og Valgeirs Guðjónssonar, félagsráðgjafa og tónlistarmanns.

Við ætlum að halda áfram að þróa forritið og hjálpa fólki að læra að nota það á styttri eða lengri námskeiðum. Við stefnum svo að því í framtíðinni að laga hluta þess að snjalltækjum þegar reynsla er komin á það. Við ætlum að taka lítil skref í einu og beina kröftunum að þeim hópum sem tækið hentar best,“ segir Arnar Tómas Valgeirsson um nýja forritið Nemanet.

Nemanet byggir á áratuga reynslu foreldra Arnars, námsráðgjafans Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur og Valgeirs Guð- jónssonar, félagsráðgjafa og tónlistarmanns. Arnar er sjálfur með BS-próf í sálfræði og hefur því fengið nokkra nasasjón af námssálarfræði sem býr að baki forritinu í gegnum nám sitt.

Nemanet er forrit sem eflir námstækni nemenda. Í forritinu er hægt að setja inn allt námsefnið, sem nemandinn flokkar svo niður eftir hentugleika. Viðmót forritsins er eins konar vinnuborð sem notandinn setur saman sjálfur og flokkar efnið í efnisflokka, raðar eftir tímabilum o.fl.

„Við viljum alltaf bæta okkur og gera betur. Ég er alveg viss um að ef ég hefði notað þetta forrit eða annað sambærilegt sjálfur í námi hefði ég getað staðið mig betur,“ segir Arnar kíminn. Arnar segir að einn af kostunum sé að námsefnið sé allt á einum stað og vistað á AmazonCloud og því sé efnið alltaf innan seilingar þar sem nettenging er fyrir hendi. Það er mun auðveldara að meðtaka upplýsingar ef unnið er með efnið á skipulegan hátt. „Þetta hjálpar þeim sem eiga í erfiðleikum með að skipuleggja sig því að umhverfið í forritinu hjálpar þeim að gera það.“

Forritið miðast sérstaklega við námsmenn en allir eiga að geta nýtt sér það, einkum í starfi sem krefst mikillar upplýsingaöflunar og úrvinnslu. „Það er skýr hugsun á bak við forritið sem hjálpar til að ná árangri,“ segir hann og nefnir sem dæmi að upprifjun fyrir próf verði skilvirkari. Arnar segist telja afköst í námi mun minni en þau þyrftu að vera. „Ég held að það sé ekki alltaf hægt að kenna kennslunni um, heldur frekar að krökkum er ekki kennt hvernig á að læra,“ segir hann og bendir á sjálfan sig sem dæmi um slíkt.

Ásta Kristrún hefur orðið vör við hnignandi lesskilning í starfi sínu sem námsráðgjafi. Hún segir að hluta skýringarinnar megi rekja til þess að unga fólkið sæki sér upplýsingar með rafrænum hætti sem birtist í snöggsoðnum textum. Þegar svo mikið framboð sé af efni sem krefjist ekki lesturs efnismikils texta víki hegðunin að lesa lengri texta fyrir hraðvirkari leið- um. Nemanet er fyrst og fremst vinnutæki sem styður við einmenningsíþróttina „að læra“ samkvæmt markvissum aðferðum með skilning að leiðarljósi.

 

„Í raun er það „að skilja“ besta minnisaðferðin og eins er sagt „að ósögð orð taki sér ekki bólfestu í minni“. Þetta þýðir að sá sem lærir og vill ná langt þarf að vinna efnið sjálfur í stað þess að „gúggla“ það eða nota „quiz- og flashcard-lausnir“ sem eru búnar til af öðrum,“ segir Ásta og bætir við að flottar quiz- og applausnir geti orðið kærkomnar sem viðbót við Nemanetsforritið en ekki öfugt. Hún segir að þess þurfi að gæta að elta ekki þennan lífsstíl við smíði sértæks forrits fyrir námsmenn heldur einblína á sérhæfða lausn sem byggi á námssálarfræðilegum forsendum en ekki leikja- og afþreyingarlausnum.

 

„Þegar litið er inn í herbergi ungs fólks sem situr við námsvinnu má allt of oft greina ótal app- og símaáreiti, svo sem SMS, síma, Snapchat, Skype og Facebookskilaboð og spjall. Er svo einhver hissa á því að einbeitingu, námsfestu og lesskilning skorti?“ segir Ásta Kristrún ábúðarfull. Hún hefur þjálfað þúsundir námsmanna í aðferðum sem efla einbeitingu og úthald og þar með árangur.
 

Þær aðferðir byggja m.a. á skilningi á virkni heilans og kröfu hans um „matreiðslu efnis“ áður en það er stimplað inn. Á næstunni hefst vinna við að kynna forritið fyrir heimilum og einstaklingum á öllum aldri og skólastigum og bjóða upp á námskeið.

 

Til að byrja með verður forritið selt í gegnum þátttöku í námskeiðunum. ​Í nánustu framtíð verður síðan hægt að kaupa aðgang að því.

bottom of page